Ólafía er að keppa á sínu þriðja risamóti en á enn eftir að komast í gegnum niðurskurð á risamóti. Hún keppti fyrr á þessu ári á KPMG PGA-meistaramóti kvenna og Opna breska.
Hún er í ráshópi með Angel Yin og Kim Kaufmann. Yin er nýliði, eins og Ólafía, og eru þær sagðar góðar vinkonur í umfjöllun á heimasíðu LPGA. Kaufman er reynsluboltinn í hópnum og er að spila á Evian Championship-mótinu í fjórða sinn.
Fylgst verður náið með gangi mála í beinni textalýsingu frá Vísi sem og á Golfstöðinni.
Bein útsending hófst í morgun klukkan 09.00 og stendur yfir til 12.00. Útsendingin hefst að nýju klukkan 13.30 og lýkur klukkan 16.30.
Þorsteinn Hallgrímsson, sérfræðingur Golfstöðvarinnar, er staddur í Frakklandi til að fylgjast með mótinu ásamt Friðriki Þór Halldórssyni myndatökumanni. Munu þeir flytja fréttir af Ólafíu á Golfstöðinni, í Sportpakkanum á Stöð 2 og á íþróttavef Vísis.