Ólafía lék átjándu holuna á erni eftir að hafa vippað ofan í rétt utan flatar, eins og sést í myndbandinu hér fyrir neðan. Örninn þýddi að Ólafía kláraði mótið á þrettán höggum undir pari í fjórða sæti sem er hennar langbesti árangur á LPGA-mótaröðinni.
Sjá einnig: Ólafía Þórunn: Reyndi að gera hlutina einfalt og halda mér í núinu
Hún hefði hafnað í 10.-11. sæti mótsins hefði hún spilað átjándu holuna á pari sem hefði fært henni um 40 þúsund dollara í verðlaunafé, en Ólafía fékk tæpar 103 þúsund dollara fyrir fjórða sætið, tæpar 11 milljónir króna. Er það um 6,5 milljónum meira en hún hefði fengið fyrir að lenda í 10.-11. sæti.
En það sem enn meira máli skiptir er að árangurinn fleytti henni upp í 67. sæti peningalistans. Hefði hún fengið 40 þúsund dollara væri hún nú í 91. sæti listans.
Efstu 100 kylfingarnir á peningalistanum endurnýja þátttökurétt sinn á LPGA-mótaröðinni en efstu 80 komast í efsta flokk í forgangsröðun kylfinga á tímabilinu og því eftir miklu að sækjast að vera í þeim hópi.
Sjá einnig: Ólafía fékk rúmar 10 milljónir | Komin í 67. sæti peningalistans
Örninn hennar Ólafíu var því gríðarlega mikils virði, ekki aðeins peninganna vegna heldur einnig vegna stöðu hennar á listanum sem öllu ræður um þátttöku kylfinga á mótaröð næsta tímabils.
Höggið hennar Ólafíu má sjá hér fyrir neðan.