Hún kveðst hafa þjálfað röddina síðan hún var barn og í þessari sýningu sé hún ein á sviðinu. „Röddin mín, líkami minn, sundlaug og ljós. Lögin og hið sjónræna verður að einni heild,“ útskýrir hún.
En hvaðan kemur tónlistin í A Thousand Tongues og hvernig valdi hún lögin?
„Ég lærði lögin á ferðalagi mínu um heiminn og mér fannst þau hafa einstaka möguleika til að verða að einhverju. Þau eru frá ólíkum löndum, Kúrdistan, Grikklandi, Íslandi, Íran, Noregi, Spáni, Búlgaríu og Mongólíu og einnig eru nokkrar línur úr Kóraninum við lag sem ég samdi sjálf. Lögin eru leiðarljós sýningarinnar. Mér leið reyndar eins og þau veldu mig því hvert tungumál ber með sér ólíkar tilfinningar og ég vildi birta marga og mismunandi menningarheima.

Verkið A Thousand Tongues var heimsfrumsýnt í Grotowski-stofnuninni í lok síðasta árs á Ólympíumóti í leiklist í Wroclaw í Póllandi, Menningarhöfuðborg Evrópu 2016.
Það var sviðsett og framleitt af alþjóðlega listahópnum Source Material og leikstjóri er hin bandaríska Samantha Shay.
Aðeins verða tvær sýningar hér á landi, í kvöld og á sunnudaginn klukkan 20.30 í Tjarnarbíói.