Handbolti

Dagur Sig teiknaði upp frægasta leikkerfi íslenska handboltans | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson mætti til Tómasar Þórðar Þórðarsonar í Seinni bylgjuna á Stöð 2 Sport í gær og fór yfir þriðju umferð Olís-deildar karla með Tómasi og Jóhanni Gunnari Einarssyni.

Dagur Sigurðsson er nú landsliðsþjálfari Japans en hann vann EM-gull og Ólympíubrons með þýska landsliðinu á árinu 2016.

Dagur ræddi ekki aðeins gang mála í þriðju umferð Olís-deildarinnar heldur fór hann einnig yfir leikkerfið sem svo mikið hefur verið spilað í íslenskum handbolta undanfarin ár, bæði í landsliðinu sem og í deildinni.

Nafn þessa leikkerfis, Kaíró, er orðið landsfrægt vegna þessa en Tómas fékk Dag til að taka þetta kerfi fyrir og sýna öllum að Kaíró er ekki bara borg í Egyptalandi.

Dagur fór yfir þegar Kaíró-leikkerfið var spilað í leik Aftureldingar og FH og það er óhætt að segja að þetta leikkerfi hafi komið ansi oft fyrir.

„Ég taldi þetta saman og þetta voru 23 skipti í fyrri hálfleik á þessum leik. Það voru bæði lið að nota þetta og nokkrar útfærslur í gangi,“ sagði Dagur.

Dagur fór síðan á töfluna og teiknaði upp þetta frægasta leikkerfi íslenska handboltans. Það er hægt að sjá Dag fara yfir Kaíró-leikkerfið í myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×