Leikmaður ársins í Pepsi deild kvenna, Sandra Stephany Mayor, og Bianca Serra hafa framlengt samninga sína við Íslandsmeistara Þórs/KA.
Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, er að vonum ánægður með að halda mexíkósku stúlkunum í liðinu.
„Það er mjög sterkt að halda báðum þessum leikmönnum. Þær stóðu sig afbragðs vel í sumar, bæði inni á vellinum og fyrir utan," sagði Halldór eftir að samningarnir voru undirritaðir.
„Við viljum helst halda öllum okkar leikmönnum, það er stefnan að þær mæti aftur í janúar og taki meirihlutann af undirbúningstímabilinu með liðinu."
Mexíkóska parið kann einkar vel við sig á Íslandi og sögðu það auðvelda ákvörðun að framlengja samninginn.
„Akureyri er eins og okkar annað heimili og fólkið hjá Þór/KA hefur tekið okkur eins og hluta af fjölskyldunni," sögðu þær.
