Verðlaunasagan, Er ekki allt í lagi með þig?, kom líka út í gær hjá Forlaginu, svo Elísa var að vonum glöð.
„Þetta var frábær dagur, bæði að fá verðlaun og eigin bók í hendur,“ segir hún og bætir við: „Ég reiknaði ekki með að vinna. Sagan er miðuð við lesendur í 8. til 10. bekk, það er að segja fjórtán til sextán ára, og ég var ekki viss um að unglingabókarhandrit félli í kramið.“
Er ekki allt í lagi með þig? er fyrsta höfundarverk Elísu sem kemur út en hún lumar á ýmsu efni í skúffunni, meðal annars handriti að barnabók, að eigin sögn. Auk þess hefur hún þýtt eina bók, Villt heitir hún.
Um söguþráð nýju bókarinnar segir Elísa: „Ragnheiður er stelpa sem flytur til Íslands frá Bandaríkjunum þar sem hún hefur alist upp. Hún hefur verið lögð í einelti og glímir við námsörðugleika og foreldravandamál. Kynnist strax Heklu sem er vinsæl fótboltastelpa og valdamikil í skólanum. Hekla kynnir hana fyrir fleirum en svo fer Ragnheiður að átta sig á því að Hekla er ekki öll þar sem hún er séð.“
Í umsögn dómnefndar segir: Er allt í lagi með þig? er skemmtileg og spennandi unglingasaga í hæsta gæðaflokki sem fjallar á nýstárlegan hátt um einelti frá sjónarhóli bæði gerenda og þolenda.“

„Sagan er algerlega út úr eigin hugskoti. Ég var reyndar lögð í einelti sjálf þegar ég var barn, en bara í stuttan tíma því foreldrar mínir tóku mig úr skólanum sem ég var beitt því í, af því að þar var ekkert gert í málunum. En bókin er ekki síður skrifuð út frá reynslu gerenda eineltis og annarra sem taka þátt í því óbeint.“
Hún tekur fram að einelti sé ekki endilega aðalatriði bókarinnar heldur eitt af nokkrum umfjöllunarefnum svo sem að byrja í nýjum skóla og eignast vini, hvernig maður stendur með sjálfum sér og tekst á við vandamál tengd foreldrum.
Elísa kveðst vera Reykvíkingur að uppruna en einnig hafa búið á Höfn í Hornafirði og í Danmörku.
Hún er í fæðingarorlofi núna en er markaðs- og kynningarstjóri hjá Háskóla Íslands. „Ég byrjaði á verðlaunabókinni fyrir fimm árum og er búin að taka skorpur í henni, til dæmis í síðasta fæðingarorlofi, svo lauk ég henni í þessu orlofi.“