Þetta segir Inga Sólveig Friðjónsdóttir ljósmyndari sem er með sýninguna Nokkur þúsund augnablik á Njálsgötu 49 til 5. nóvember.
Hún kveðst haldin eins konar ferðafýsn. „Alveg frá því ég var barn og las af áfergju 1001 nótt og skoðaði myndir af ættbálkum Afríku, dreymdi mig um að ferðast til fjarlægra landa og sá draumur hefur uppfyllst af og til. Það gefur mér alltaf jafn mikið að upplifa aðra menningu, fólk, byggingar og andrúmsloft.“

Spurð hvort hún raði myndunum sjálf upp í tölvunni svarar hún: „Já, það er í fyrsta skipti sem ég hef þann hátt á. Þegar ég hef búið til samsett verk áður hef ég gert þau í höndunum, því ég er frekar tæknifælin. En nú byrjaði ég á að skanna myndirnar inn og raða þeim svo upp í tölvunni.“
Inga Sólveig kveðst eiga stafræna vél, „en þegar ég er í spariskapinu er ég yfirleitt með filmur,“ segir hún. „Það er langskemmtilegast að taka á einhverjar gamlar Rolyflex-vélar. Svo er ég með aðstöðu til að framkalla og geri það líka.
Mér finnst rosa gaman að vinna í myrkraherberginu og stundum mála ég ofan í svarthvítu myndirnar á gamaldags máta. Öll svona handavinna er skemmtileg.“
