Karna er uppalin í Fellum á Fljótsdalshéraði en býr í Neskaupstað og starfar sem menningarfulltrúi Fjarðabyggðar auk þess að kenna við Listaháskóla Íslands. Það var undir lok ársins 2012 sem hún kveðst hafa byrjað að kynnast samfélaginu á Vopnafirði, skref fyrir skref – og tökur hófust.
„Langamma og langafi áttu heima á Vopnafirði en ég þekkti engan þar þegar ég kom fyrst og var því með algert gestsauga gagnvart öllu þar. Það þögnuðu allir í búðinni þegar ég birtist þar fyrst, sem var að vetri til. Nú fæ ég hlýlegar kveðjur eins og: „Jæja, farfuglinn kominn,“ eða álíka, því ég er svo oft á ferðinni.
Upphaflega ætlaði ég að gera lítil ljósmynda- og stuttmyndaverkefni en á endanum varð það að klukkutíma heimildarmynd. Auðvitað er fallegt en líka tilfinningalega strembið fyrir íbúana að fá mynd um sjálfa sig og samfélagið sitt. Þeir hafa líka fylgst með breytingum í mínu lífi, ég er búin að eignast tvö börn meðan á ferlinu stóð.“
Karna segir traust hafa byggst upp milli sín og Vopnfirðinga og kveðst vona að þeir séu tilbúnir að ræða um myndina eftir að hafa séð hana. „Auðvitað vissu allir að það yrði til mynd úr þessari vinnu og það er ekki eins og ég sé að segja öll leyndarmálin sem fólkið sagði mér. En heimildarmyndir geta gengið nærri fólki og ég er að sýna litróf Vopnafjarðar eins og ég upplifi það.

Myndatöku annaðist Sebastian Ziegler og Karna segir þau hafa fengið góða menn með sér, Kristján Loðmfjörð sem sá um klippingu og Kjartan Kjartansson hljóðhönnuð. „Þetta er fámennt teymi. Það skipti mestu máli að við vorum öll trú verkefninu og höfðum tilfinningu fyrir því enda vildum við halda nánd og nálægð við viðfangsefnið.“
Karna kveðst hafa farið með 690 Vopnafjörður til Malmö á Nordisk Panorama-markaðinn í september. „Myndin var ein af tólf sem valdar voru úr mörg hundruð myndum til að fara á franska kvikmyndahátíð sjónvarpsstöðva í janúar. Ég var líka með hana á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði og fékk góð viðbrögð þar. Ef manni tekst að fanga kjarna viðfangsefnis, þó sértækt sé, þá nær það til almennings.“