Íslenski boltinn

Horsens búið að gera tilboð í Orra Sigurð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Orri Sigurður hefur verið einn besti varnarmaður Pepsi-deildarinnar undanfarin ár.
Orri Sigurður hefur verið einn besti varnarmaður Pepsi-deildarinnar undanfarin ár. vísir/andri marinó
Danska úrvalsdeildarfélagið Horsens hefur gert Íslandsmeisturum Vals tilboð í miðvörðinn Orra Sigurð Ómarsson.

Orri Sigurður var lykilmaður í Valsliðinu sem varð Íslandsmeistari með yfirburðum í sumar. Vörn Valsmanna var sú besta í deildinni en liðið fékk aðeins 20 mörk á sig í 22 leikjum. Orri spilaði alla leikina.

„Við erum bara að skoða þetta tilboð núna. Þetta er hvorki plús né mínus eins og staðan er en félögin eru byrjuð að tala saman eins og gerist og gengur í þessu,“ segir Edvard Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, við Vísi.

Orri Sigurður fór ungur að árum í atvinnumennsku til AGF í Danmörku en kom heim fyrir sumarið 2015 og hefur spilað 65 af 66 leikjum Vals í Pepsi-deildinni síðan þá. Hann hefur verið einn allra besti varnarmaður deildarinnar undanfarin ár og verið undir smásjá margra erlendra liða.

Horsens er í sjöunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 21 stig eftir fjórtán umferðir en með liðinu spilar Kjartan Henry Finnbogason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×