Stirni Ensemble lofar fjörugum tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á morgun, 14. janúar. Þeir hefjast klukkan 17 og yfirskriftin er Ballöður fyrir brjálæðinga.
Efnisskráin er suðræn og seiðandi og til þess fallin að fá hjörtun til að slá örar og fá D-vítmín fyrir sálina, að sögn Hafdísar Vigfúsdóttur, flautuleikara hljómsveitarinnar. „Meðal annars verða fluttar splunkunýjar útsetningar á sönglögum Turina og Piazzolla,“ upplýsir hún.
Aðrir í Stirni Ensemble eru Björk Níelsdóttir sópran, Grímur Helgason klarínettuleikari og Svanur Vilbergsson gítaristi. Hópurinn gerir út á óvenjulega samsetningu, fjölbreytni og flæði á tónleikum og pantar gjarnan ný tónverk eða útsetur, auk þess að leika standard verk.
Flytjendur stunduðu allir nám í Hollandi á svipuðum tíma og starfa nú bæði heima og heiman.
Tónleikarnir falla undir hatt Sígildra sunnudaga í Hörpu.
Fá hjörtun til að slá örar í Norðurljósum Hörpu
Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
