Kylfingarnir tveir fóru í ferð á vegum Evrópumótaraðarinnar þar sem þær lærðu að stjaka brimbrettum, heyrðu sögur af frumbyggjum og fengu að gangast undir svokallaða „bush tucker trial“ sem frægar eru í bresku raunveruleikaþáttunum I'm a Celebrity Get Me Out of Here þar sem keppendur þurfa að borða ýmsar dýraafurðir sem oftast eru ekki kenndar við átu.
„Leiðsögumaðurinn okkar talaði mál frumbyggja og lét okkur smakka blóm og lauf. Það var frábært að prófa brettið, þetta var eitthvað sem ég hafði ekki gert áður. Ég var sú eina sem datt,“ sagði Ólafía í viðtali við heimasíðu Evrópumótaraðarinnar.
Ástralski Ólympíufarinn Ky Hurst kenndi stelpunum á brettin. Svipmyndir frá deginum má sjá á Instagram aðgangi Evrópumótaraðarinnar, letgolf.
Ólafía Þórunn keppir á Ladies Classic Bonville mótinu, sem er hluti af Evrópumótaröðinni, um helgina ásamt Valdísi Þóru Jónsdóttur. Ólafía á að hefja leik klukkan 13:30 að staðartíma á fimmtudaginn sem er klukkan 02:30 aðfaranótt fimmtudags á Íslandi.