Handbolti

Kristín: Af því að ég er sterkari en hún þá fæ ég tvær mínútur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristín í baráttunni.
Kristín í baráttunni. vísir/vilhelm
„Við töpum þessum leik bara á fyrstu tíu mínútum leiksins ,“ segir Kristín Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, eftir tapið gegn Fram í kvöld.

„Við spilum ágætis leik í seinni hálfleik. Sóknarleikurinn kannski ekki upp á tíu síðustu fimm en við gerðum atlögu að þessu undir lokin. Í seinni hálfleik spiluðum við hörku vörn og vorum svolítið að berja á þeim. Það er það sem við viljum.“

Kristín var ekkert sérstaklega sátt við dómara leiksins í kvöld.

„Þeir stjórna þessum leik bara í fyrri hálfleik bara með einhverjum ruðningum og skrefum. Ég vona innilega að þeir horfi á þennan leik aftur. Það er ekki hægt að vera dæma ruðning í hverri sókn.”

„Hvort sem það er Fram eða Valur. Ég er ekki að segja að það sé bara á okkur. Ef það er ruðningur, þá verður það að vera alvöru ruðningur. Við erum aðeins og mikið að líta upp til körfuboltans ef þetta er svona.“

Kristín segir að Framarar hafi oft á tíðum látið sitt detta í leiknum í kvöld.

„Ég fæ tvær mínútur þegar Steinunn kemur á blússinu á mig. Þetta var ruðningur en af því að ég er sterkari en hún, þá flýgur hún í gólfið og ég fæ tvær mínútur.”

„Það er alltaf eins og maður sé að ýta henni. Við fáum bara ekkert að berjast og mér fannst dómararnir ekki nægilega góðir í kvöld. Við töpum ekki útaf þeim samt sem áður.“

Hún segir að liðið mæti tilbúið í næsta leik.

„Ég er sko ekki komin hingað til að tapa þessu einvígi, ég get alveg sagt þér það. Ég get alveg drepið mig núna. Ég er hvort sem er að hætta þessu,” sagði Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×