Þetta er tólfta sumarið í röð sem leikhópurinn leggur land undir fót og ferðast með glænýja fjölskyldusýningu um landið þvert og endilangt. „Það hefur komið haglél á okkar sýningum. Við erum öllu vön en þetta er auðveldast fyrir okkur leikarana því við hlaupum og hoppum, syngjum og tröllum til að halda á okkur hita. Áhorfendur þurfa svolítið að klæða sig eftir veðri.
Það er stundum skemmtilegra að vera á vondaveðurs-sýningum. Það eru færri og stemningin breytist. Áhorfendur þjappa sér meira saman en það er erfitt að útskýra hvað það er sem gerir slíkar sýningar betri.“
Sagan um Gosa gerist inni í Ævintýraskóginum en eins og Lottu er von og vísa blandast fleiri þekkt ævintýri inn í verkið. Heyrst hefur að það beri okkur inn í háan turn þar sem við hittum skemmtilega stelpu með afskaplega langa fléttu og að á öðrum stað í Ævintýraskóginum verðum við vitni að því þegar þrjár óskir valda miklum vandræðagangi.

„Við erum að fjalla um Gosa en það er ekkert mikið meira úr hans ævintýri annað en nafnið heldur gerðum við nýja sögu með blöndu úr Garðabrúðu og Óskunum þremur. Garðabrúða heitir reyndar Ósk í okkar útgáfu. Börn þessa lands tengja meira held ég við Ósk frekar en Garðabrúðu. Síðan er þriðja ævintýrið Óskirnar þrjár sem margir eru búnir að gleyma.“
Sýningarplanið er einfalt. Það verða um 100 sýningar á um 50 stöðum víðsvegar um landið en sýningarplanið er á Facebook síðu hópsins.