Veiði

Settu í sjö laxa við opnun Stóru Laxár

Karl Lúðvíksson skrifar
Binni með flottan lax við opnun Stóru Laxár.
Binni með flottan lax við opnun Stóru Laxár. Mynd: Árni Baldursson
Stóra Laxá í Hreppum opnaði um helgina en áin er líklega ein af þeim ám sem getur komið veiðimönnum vel á óvart á hverju ári.

Fyrsta hollið í ánni þurfti að takast á við mikið vatn eins og margir aðrir veiðimenn við árnar á suður og vesturlandi þessa dagana en endalausar rigningar hafa haldið ánum háum í vatni og þegar litið er á veðurspánna eru ekki miklar líkur á að það breytist í bráð. Þrátt fyrir hátt vatn var sett í sjö laxa og af þeim voru fjórir dregnir á þurrt. Þessi tala gæti hafa hækkað eitthvað á seinni vaktinni í gær en við höfum ekki fengið það staðfest. Frá árinu 2009 hefur veiðin í ánni verið góð en með topp sem var árið 2013 þegar 1.776 laxar veiddust en það er metár í ánni. Frá því ári hefur veiðin farið lægst í 590 laxa í fyrra en þegar skoðaðar eru veiðitölur lengra aftur í tímann er það ekki slök veiði. Sem dæmi þá var besta veiðin á árunum 200-2009 á árinu 2006 þegar það veiddust 709 laxar í ánni en slökust var veiðin árið 2000 þegar aðeins 183 laxr veiddust.

Mjög hátt sleppihlutfall er af laxinum sem er veiddur í ánni og hefur verið svo í nokkur ár eða síðan Lax-Á tók við ánni. Fram af því var það undantekning ef laxi var sleppt aftur. Afraksturinn af þessu er vonandi að skila sér og að áin sem í gamla daga var kölluð Tóma Laxá sé loksins komin á þann stað sem hún á skilið. Áin á líklega sína bestu daga síðsumars en frægar göngur í ánna á haustinn hafa varla farið framhjá neinum veiðimanni. Í bestu hollunum þar eru dæmi um að tveggja daga holl sé að fara yfir 100 laxa veiði og um helmingur af því verið tveggja ára lax.





×