Golf

Kylfingar af LPGA mótaröðinni leika á Hvaleyrarvelli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vill láta gott af sér leiða.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir vill láta gott af sér leiða. Mynd/Twitter-síða Ólafíu
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, og KPMG halda góðgerðarmót til styrktar Umhyggju á Hvaleyrarvelli á morgun. Þetta er annað árið í röð sem þau standa fyrir mótinu.

Ólafía hefur verið merkisberi KPMG síðan í byrjun árs 2017. Hún er þar í hópi frábærra kylfinga á borð við Phil Mickelson og Stacy Lewis.

Á mótinu í fyrra söfnuðust um fjórar milljónir króna til styrktar Barnaspítala Hringsins. Þar voru nokkrir kylfingar af LPGA mótaröðinni að keppa og mun slíkt hið sama vera upp á teningnum í ár.

Þær Alexandra Jane Newell, Allison Emrey, Cheyenne Woods og Madeleine Sheils munu keppa með Ólafíu Þórunni á mótinu ásamt mörgum af fremstu kylfingum Íslands. Mótið hefst klukkan 13:00 á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði á morgun.

„Ég hlakka ótrúlega mikið til að koma heim eftir nokkuð langa og stranga keppnislotu. Það gefur mér mikið að standa að og taka þátt í svona viðburðum og mótið í fyrra heppnaðist frábærlega. Ég hef nánast ekkert spilað golf heima í tvö ár þannig að það verður mjög gaman að koma og spila með góðum félögum og styrkja um leið þetta frábæra málefni. Höfum gaman og #verumgóð“ sagði Ólafía Þórunn í tilkynningu KPMG.

Nánari upplýsingar um mótið og myndir frá móti síðasta árs má finna á heimasíðu KPMG.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×