Íslenski boltinn

Pepsi-mörkin: „Hrikalega mikið að“ í varnarleik Fylkis

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Varnarleikur Fylkis var í molum á Akureyri
Varnarleikur Fylkis var í molum á Akureyri S2 Sport
Fylkir hefur tapað síðustu fimm leikjum sínum í Pepsi deild karla og fengið á sig 13 mörk í síðustu þremur leikjum. Liðið situr í 11. sæti með 11 stig eftir 13 umferðir.

„Það eina sem mig langar að segja er að Helgi Sigurðsson var að tala um, og hefur sagt það oft núna, að þeir séu með unga varnarmenn og vill vernda þá. Ég skil það vel. En varnarleikurinn stendur ekki og fellur með þessari þriggja eða fjögurra manna línu. Varnarleikur liðsins er úti um allan völl,“ sagði Freyr Alexandersson, einn sérfræðinga Pepsimarkanna á Stöð 2 Sport í uppgjörsþætti 13. umferðarinnar.

S2 Sport
„Þeir eru allt of mikið að reyna að pressa en þeir hafa ekki lið í það. Ef þeir pressa þá verða þeir að gera það í köflum að mínu mati. Þeir geta farið upp stundum en þeir verða að fara niður og þétta liðið.“

„Núna, þegar þú ert búinn að leka inn mörkum, þá verður þú bara að fara „back to basics“. Stoppa í götin, byrja bara á því að taka stig og byggja síðan ofan á það.“

Ásgeir Eyþórsson er einn reynslumesti varnarmaður Fylkis, fæddur 1993 og á 115 meistaraflokksleiki fyrir félagið. Hann fékk sitt seinna gula spjald og því rautt á 62. mínútu leiksins gegn KA á Akureyri um helgina.

„Þetta er algjört agaleysi í raun og veru í þessari stöðu, að bjóða upp á þetta,“ sagði Reynir Leósson. „Að vera búinn að eltast við það að fá spjald og þetta er mjög ólíkt Ásgeiri.“

„En það er auðvitað bara hrikalega mikið að þarna.“

Fylkir hefur fengið á sig flest mörk allra í Pepsi deildinni til þessa, 28 mörk. Næsti leikur Fylkis er gegn Íslandsmeisturum Vals á mánudagskvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×