Haraldur hefur ekki orðið Íslandsmeistari síðan að hann sigraði á mótinu árið 2012 þá aðeins tvítugur að aldri en þykir ansi líklegur til afreka miðað við spilamennskuna í sumar.
Hann fær þó heldur betur samkeppni því Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr Keili og ríkjandi Íslandsmeistari í höggleik, hefur ákveðið að vera með eftir að búið var að gefa út að hann myndi ekki taka þátt.

Börðust um sigurinn í fyrra
Axel ætlaði að vera í fríi um næstu helgi, að því fram kemur á Kylfingur.is, en hefur ákveðið að vera með í Eyjum þar sem að hann reynir að verja Íslandsmeistaratitilinn. Axel er tvöfaldur meistari en hann vann einnig árið 2011, ári á undan Haraldi.Þeir félagarnir háðu svakalega baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra sem endaði með því að Axel hafði betur í bráðabana og vann sinn annan Íslandsmeistaratitil.
Haraldur og Axel eru ekki einu atvinnumennirnir sem verða með í Eyjum því Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Andri Björnsson og Ólafur Björn Loftsson eru allir skráðir til leiks. Eini atvinnumaðurinn sem ekki tekur þátt er Birgir Leifur Hafþórsson.