Handbolti

Selfyssingar að landa pólskum markverði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pawel Kiepulski leit vel út á Ragnarsmótinu.
Pawel Kiepulski leit vel út á Ragnarsmótinu.
Lið Selfoss í Olís-deild karla í handbolta er búið að finna markvörð til að standa vaktina hjá liðinu í vetur en það er að ganga frá samningum við Pólverjann Pawel Kiepulski, samkvæmt heimildum Vísis.

Pawel þessi spilaði með liðinu á Ragnarsmótinu í síðustu viku og stóð sig mjög vel en Selfyssingar voru í ákveðnum vandræðum með markvörslu á síðustu leiktíð. Þeir Helgi Hlynsson og Sölvi Ólafsson fá nú reyndan atvinnumann í samkeppni við sig.

Kiepulski er þrítugur þrautreyndur atvinnumaður sem hefur spilað í efstu deildinni í Póllandi nær allan sinn feril en hann er tæpir tveir metrar á hæð.

Selfyssingar hafa ekki verið mjög virkir á félagaskiptamarkaðnum í sumar en liðið er aðeins búið að fá til sín Matthías Örn Halldórsson sem spilaði síðast með Fjölni.

Selfoss er aftur á móti búið að missa stórskyttuna Teit Örn Einarsson í atvinnumennsku til Kristianstad og þá er varnartröllið Eyvindur Hrannar Gunnarsson fluttur til Danmerkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×