Menning

Syngur í Rínargulli Wagners í Þýskalandi og aríur í Hannesarholti

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Bjarni Thor.
Bjarni Thor. Fréttablaðið/Eyþór
Bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson syngur á hádegis­tónleikum í Hannesarholti á sunnudaginn, 21. október, klukkan 12.15. Tónleikarnir eru liður í dagskrá Óperudaga og bera titilinn Litið um öxl. Bjarni og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari ætla þar að kíkja í gamlar tónleikaskrár og setja saman dagskrá úr vel völdum aríum og öðrum lögum sem þau hafa áður flutt.

Bjarni kveðst vera mikið á ferðinni núna fram og til baka milli Þýskalands og Íslands. „Ég er staddur í Þýskalandi í dag og stíg hér á svið í Kassel eftir tvo tíma, en kem heim á morgun,“ segir hann.

Í Kassel fer hann með hlutverk Óðins í uppfærslu á Rínargulli Wagners. En hann er líka leikstjóri gamanóperunnar Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson sem er verið að æfa á Íslandi og verður frumsýnd í Norðurljósasal Hörpu um aðra helgi.

Bjarni kemur ekki oft fram á tónleikum á Íslandi en hefur tekið virkan þátt í sýningum Íslensku óperunnar. Annars heldur hann sig mest á erlendum óperusviðum, hefur sungið við mörg stærstu óperuhús Evrópu á undanförnum árum, þar á meðal í Berlín, París, Veróna, Róm, Lissabon, Barcelona og Amsterdam.

Eftir tónleikana í Hannesarholti mun gestum gefast kostur á að hlýða á stutt spjall við Bjarna, meðal annars um nýjasta ævintýrið úti. – gun






Fleiri fréttir

Sjá meira


×