Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 22-27 │Eyjakonur með þriðja sigurinn í röð

Gabríel Sighvatsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/vilhelm
Stjarnan tók á móti ÍBV í TM-höllinni í dag þar sem 8. umferð Olís deildar kvenna hófst. Stjarnan hafði harma að hefna eftir að hafa tapað fyrri leik liðanna í Vestmannaeyjum.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var í Mýrinni í kvöld og tók myndirnar sem fylgja fréttinni.

Leikurinn var jafn til að byrja með og virtust liðin ætla að ganga til búningsherbergja með lítið eða ekkert forskot.

Hinsvegar gaf Stjarnan eftir á lokakafla fyrri hálfleiks og ÍBV nýtti sér það, staðan 9-15 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var að mestu leyti sama sagan. Jafnt á milli liðanna en á endanum setti ÍBV í næsta gír og þær náðu að klára þetta að lokum með 5 mörkum.

Það munaði litlu að Stjarnan næði að jafna en munurinn var um tíma aðeins 1 mark. Eins og áður sagði þá tók góður kafli ÍBV við eftir það og tölur að leikslokum 27-22.


Elísabet Gunnarsdóttir í hörðum slag í kvöld.vísir/getty
Af hverju vann ÍBV?

ÍBV spilaði í sjálfu sér ekki vel í dag en kláraði engu að síður verkefnið og það ber að hrósa þeim fyrir það. Hvort sem það var slæmur kafli hjá Stjörnunni eða góður kafli hjá Eyjakonum síðustu mínúturnar þá skiptu þessa 5-10 mínútur klárlega máli hvoru megin þetta féll í dag.

Hvað gekk illa?

Í byrjun leiks var sóknarleikur ÍBV ekki að finna lausnir á vörn gestanna. Stjarnan náði ekki að nýta sér það nógu vel og það kom í bakið á þeim.

Stjörnukonur virtust vera búnar á því eftir 20 mínútur en þá náði ÍBV afgerandi forystu og var svipað uppi á teningum í seinni hálfleik. Akkúrat þegar maður hélt að ÍBV væri að missa forystuna þá kláraði liðið þetta.

Hverjar stóðu upp úr?

Stefanía Theódórsdóttir í Stjörnunni var markahæst með 6 mörk. Arna Sif skoraði 5 mörk fyrir ÍBV.

Guðný Jenný var í stuði í marki gestanna og átti 14 varin skot.

Hvað gerist næst?

ÍBV sækir lið HK heim á meðan Stjarnan fær annan séns gegn botnliði Selfoss í botnslag.

Basti hugsi í kvöld.vísir/vilhelm
Basti: Má ekki biðja um of mikið í einu

Sebastian Alexandersson var hundfúll með úrslit kvöldsins. Stjarnan var í eltingarleik allan leikinn en missti af andstæðingnum undir lok leiksins.

„ÍBV gaf dauðafæri á því að láta sigra sig í dag og mér fannst við ekki nýta tækifærið þegar það gafst nógu vel. Við náðum að minnka í eitt mark og þær svo gott sem búnar að brotna, byrjaðar að hengja haus og allt orðið ómögulegt hjá þeim.”

„Því miður þá fáum við enn einn 5-6 mínútna kafla þar sem boltinn fer stöngin út, tæknifeilar en Guð minn góður, þetta er allt önnur frammistaða en í síðasta deildarleik.“

Stjarnan sýndi framför í kvöld en það dugði ekki til sigurs í kvöld.

„Andstæðingurinn gaf færi á sér í dag, við nýttum það ekki en það er langt síðan við skoruðum meira en 20 mörk og við fengum minna en 30 mörk á okkur og ég fagna því. Þetta er ekki nógu gott en skref í rétta átt.“

„ÍBV er hörkulið með mjög klókan þjálfara. Við erum að spila á hálfu liði með lykilmenn meidda og alls konar í gangi hjá okkur. Miðað við hvernig staðan er hjá okkur í dag þá er ég bara sáttur með frammistöðuna í dag.”

„Ég hefði viljað meira en ég má ekki biðja um of mikið í einu. Þetta er skref í rétta átt en það þarf að koma næsta skref í næsta leik en ekki til baka.“

Það voru afdrifaríkar 10 mínútur í lok leiks þar sem Stjarnan hefði getað gert betur en Sebastian var engu að síður ánægður með framförin sem liðið tók.

„ÍBV gaf gott færi á sér sem við hefðum getað nýtt betur, það eru þarna 2-3 ákvarðanir og 2-3 stangarskot. Þrjú skot sem hefðu getað farið inn í stað þess að vera varin. Þetta eru smáatriði hér og þar.”

„Heilt yfir er ég ánægður með liðið að hafa framfylgt því leikskipulagi sem var lagt upp með og ég bauð leikmönnum upp á það að gera eitthvað í dag sem hefur ekki verið æft neitt. Mér finnst það geggjað að vera með lið sem getur tekið eina æfingu og sýnt þessa frammistöðu með þennan varnarleik sem við vorum að bjóða upp á.“

Hrafnhildur var ekki nægilega sátt með leik sinna stúlkna í kvöld.vísir/vilhelm
Hrafnhildur: Slen yfir okkur

Hrafnhildur Skúladóttir var ánægð með 2 stig en var ekki nógu sátt með leik síns liðs.

„Mér fannst við vera að spila mjög illa á löngum köflum í þessum leik. Við erum að vinna í að ná stöðugleika í okkar leik og ætluðum að ná því í dag. Í sjálfu sér fannst mér margt ábótavant en auðvitað þurfum við að vera glöð með tvö stigin, það er frábært.“

Hrafnhildur sagði að liðið hefði ekki verið 100 prósent í dag.

„Mér fannst slen yfir okkur. Það vantaði meiri kraft í alla leikmenn. Eiginlega allir fannst mér vera 70 prósent. Það er ákveðin styrkur, finnst mér, að spila svona langt undir getu og vinna samt og það er jákvætt.“

„Þessar tíu mínútur í fyrri hálfleik þar sem við náum forskotinu, það er eini kaflinn í leiknum sem við vorum í alvöru með lífsmarki en fyrir utan það erum við ekki 100 prósent.“

Stjarnan komst nálægt því að jafna leikinn þegar munurinn var aðeins eitt mark en ÍBV slapp fyrir horn en Hrafnhildi leið ekki vel á hliðarlínunni á meðan á þessu stóð.

„Það fór um mig, engin spurning. Miðað við yfirlitið á leikmönnum var þetta ekki þægilegt.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira