Í myndbandi sem Gámafélagið sendi frá sér í gær einn helsti keppinautur fyrirtækisins, Sorpa, borinn nokkuð þungum sökum. Myndbandið, sem sjá má hér að neðan, hverfist um hættuna sem Gámafélagið telur að lífríkinu stafi af notkun einnota plasts. Það safnist upp í náttúrunni og bitni á öllu lífríki jarðarinnar - jafnt hér á Íslandi sem og annars staðar.
Það er því mat Gámafélagsins að Ísland ætti að vera leiðandi í baráttunni gegn einnota plasti, til að mynda með því að hætta notkun á burðarplastpokum hið fyrsta.
Gámafélagið beinir þó ekki aðeins spjótum sínum að plasti í myndbandinu, heldur einnig Sorpu. Um miðbik myndbandsins birtist mynd af skrifstofum Sorpu í Reykjavík og dregin upp bein tilvitnun í framkvæmdastjóra fyrirtækisins. „Sorpa sér ekki rökin fyrir banni við notkun einnota haldapoka úr plasti,“ er haft eftir framkvæmdastjóranum, Birni H. Halldórssyni.
Ljóst er að Gámafélaginu þykir ekki mikið til þessarar umsagnar koma. Ýjar fyrirtækið að því að Sorpa hafi með þessu stuðst við útlenskar rannsóknir „þar sem aðstæður eru allt aðrar til að mála upp veruleika þar sem einnota plastnoktun er af hinu góða.“ Bendir Gámafélagið á í því samhengi að erlendis sé gert ráð fyrir því að allir plastpokarnir endi í brennslu í staðinn fyrir olíu eða kol til að framleiða rafmagn. Slíkar aðstæður séu ekki hér á landi heldur endi flestir pokarnir í urðun eða úti í náttúrunni.
„Plastmengun er mikið vandamál hér á landi eins og annars staðar og það er fróðlegt að sjá hver vill vernda plastið,“ segir í myndbandi Gámafélagsins - og fer ekki á milli mála að þarna er vísað til Sorpu. „Hagsmunir en ekki hugsjónir hvetja suma til að leggjast gegn minnkun notkunar á plastpokum.“
Myndband Íslenska Gámafélagsins má sjá hér að ofan.