Þjóðleikhúsið og Baltasar Kormákur leggja nú drög að því að sviðsetja Villiöndina eftir Henrik Ibsen, en fyrirhugað er að frumsýna verkið næsta leikár. Um er að ræða fyrstu leikstjórn Baltasars á sviði í á níunda ár.
Baltasar hefur leikstýrt fjölda leiksýninga í Þjóðleikhúsinu og víðar. Vegna anna við kvikmyndaleikstjórn og -framleiðslu í Bandaríkjunum og á Íslandi hefur hann ekki getað sinnt leikstjórn í leikhúsi frá því hann setti upp Gerplu í Þjóðleikhúsinu árið 2010.
Meðal rómaðra leikstjórnarverkefna Baltasars í Þjóðleikhúsinu eru Þetta er allt að koma, Pétur Gautur, Ívanov, Leitt hún skyldi vera skækja, Hamlet, RENT og Draumur á Jónsmessunótt, en hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir leikstjórn sína á Þetta er allt að koma og Pétri Gaut.
Villiöndin var frumflutt árið 1885 og er af mörgum talið eitt allra besta leikrit norska skáldjöfursins Henriks Ibsens, og var síðast sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1996. Villiöndin er tragíkómískt verk þar sem sem sálfræðilegt innsæi skáldsins og hæfileiki til að greina mannlegan veruleika njóta sín til fulls.
Baltasar snýr aftur í Þjóðleikhúsið
