Vísir greindi frá deilu þjálfaranna við KSÍ í september en málið snýst um bónusgreiðslur og fjárhæðin nemur milljónum króna.
Guðni vildi ekkert tjá sig um málið þá og hann vildi heldur sem minnst ræða málið í kappræðunum í gær.
„Þetta mál er í fínu ferli og tekur smá tíma,“ segir Guðni en í dag eru 227 dagar frá því Ísland spilaði sinn síðasta leik á HM og því ljóst að þetta tekur aðeins meira en smá tíma.
„Ég er bjartsýnn á fína lendingu í þessu máli en við erum að takast á. Það er ágreiningur um túlkun á þessum samningi. Þar við situr. Við erum sammála um að vera ósammála og erum að reyna að leysa úr þessu í friði. Við erum vonandi að nálgast lausn. Þetta hefur aðeins tekið á en er að leysast.“
Í umræðunum kom einnig fram að það var Geir Þorsteinsson sem gerði þennan samning við Heimi sem er svona erfitt að túlka í dag.
Sjá má umræðuna um þetta mál hér að neðan.