Handbolti

Tæp 40 prósent íslenskra handboltamanna veðjuðu á leiki í eigin deild

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mynd tengist efni fréttar ekki beint.
Mynd tengist efni fréttar ekki beint. vísir/bára
Í nýrri BS-rannsókn háskólanemans Guðmundar Sigurðssonar sem hann gerði fyrir sálfræðideild Háskóla Íslands kemur fram að handboltafólk stundar veðmál ansi grimmt og stór hluti veðjar á leiki í eigin deild.

Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu í dag en Guðmundur fékk svör frá 38 prósent leikmanna úr félagsliðum sem spiluðu Íslandsmótið 2017-2018. Alls tóku 309 leikmenn leikmenn þátt í könnuninni, flestir á aldursbilinu 18-20 ára.

Tæplega 47 prósent aðspurðra sögðust hafa tekið þátt í peningaspilum síðastliðna tólf mánuði og þá spiluðu átta prósent þeirra vikulega eða oftar.

Það stóra í rannsókninni er að 38 prósent þeirra sem stunda veðmál viðurkenndu að hafa veðjað leiki í eigin deild og ríflega tíu prósent veðjuðu á eigin leiki en bæði er vitaskuld stranglega bannað samkvæmt reglum handknattleikssambandsins.

„Það veldur okkur miklum áhyggjum, sé það raunin. Það er alveg ljóst að ef fram heldur sem horfir gæti þetta orðið vandamál hér, í formi hagræðingar úrslita og fleira. Það er í lögunum okkar að leikmönnum er óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi í kringum sína leiki. Við erum að skoða með hvaða hætti er hægt að útvíkka það,“ segir Róbert Geir Gíslason, formaður HSÍ, við Morgunblaðið.

Fram kemur í rannsókn Guðmundar að veðmálaspilun handboltafólks er minni en í sambærilegum rannsóknum sem gerðar hafa verið á fótbolta en að sama skapi hafi aðgengi að veðmálum í handbolta stóraukist á meðan að rannsóknin var gerð.

Bent er á að 56 prósent þátttakenda í rannsókninni vissu ekki hvort ákvæði væri í samningi þeirra sme bannaði þeim að taka þátt í veðmálum sem tengdust handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×