ÍBV lenti í engum vandræðum með nýliða HK á heimavelli í Olís-deild kvenna en lokatölur urðu tólf marka sigur Eyjastúlkna, 31-19.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, 12-12, og fram í síðari hálfleik áður en ÍBV steig á bensíngjöfina, læsti vörninni og vann að lokum tólf marka sigur.
Arna Sif Pálsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði tíu mörk og Ester Óskarsdóttir bætti við fimm. Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði átta mörk fyrir gestina.
Eyjaliðið er í fjórða sætinu með nítján stig og HK er í sjöunda og næst neðsta sæti deildarinnar með sjö stig.
