Elías er búinn að semja við HK og tekur við karlaliði félagsins í sumar. Hann átti að klára tímabilið með Haukum en í tilkynningu frá félaginu kemur fram að hann hafi óskað eftir því að hætta störfum nú þegar.
Ein umferð er eftir af Olís-deildinni. Haukar, sem eru í 4. sætinu, mæta ÍBV í lokaumferðinni annað kvöld.
Með sigri tryggja Haukar sér 3. sætið og mæta þá Fram í úrslitakeppninni. Vinni Haukar ekki á morgun mæta þeir Val í úrslitakeppninni.
Elías tók við Haukum fyrir síðasta tímabil. Haukar enduðu þá í 3. sæti Olís-deildarinnar og féllu úr leik fyrir Val í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Haukar komust einnig í bikarúrslit í fyrra þar sem þeir töpuðu fyrir Fram.