Reynir Leósson, einn sérfræðinga Pepsi Max-markanna á Stöð 2 Sport, segir að það gæti reynst erfitt fyrir leikmenn að sætta sig sín hlutverk í sumar.
„Þetta er spurning sem leikmaðurinn veltir fyrir sér; viltu vera toppleikmaður í toppliði, spila ekkert svakalega mikið en eiga möguleika á að landa stórum titli. Eða viltu fara í lið þar sem vægi þitt og hlutverk er stærra en liðið ekki jafn gott,“ sagði Reynir í Sportpakkanum í gær.
„Ég held að þetta séu ekkert sérstök vandræði fyrir Valsmenn, frekar fyrir leikmennina. Þjálfarar Vals eru ekkert feimnir við að velja sitt besta lið og standa algjörlega fastir á því. Ég held að þetta snúist meira um það hvernig leikmennirnir horfa á þetta og sitt hlutverk.“
Valur tekur á móti Víkingi R. í upphafsleik Pepsi Max-deildarinnar föstudaginn 26. apríl.

