Íslenski boltinn

Fyrsti Víkingurinn í 28 ár til að skora fyrsta markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikolaj Hansen.
Nikolaj Hansen. Vísir/Bára
Daninn Nikolaj Hansen varð í kvöld fyrsti Víkingurinn í 28 ár til að skora fyrsta mark Íslandsmótsins eða síðan að Tomislav Bosniak skoraði fyrsta markið sumarið 1991.

Nikolaj Hansen kom Víkingum í 1-0 á móti Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda en skoraði markið á 19. mínútu leiksins eftir laglega stoðsendingu frá Erlingi Agnarssyni.

Þetta er fjórða árið í röð sem erlendur leikmaður skorar fyrsta markið mótsins en Dion Acoff opnaði mótið í fyrra og Steven Lennon skoraði fyrsta markið bæði 2016 og 2017.

Tomislav Bosniak skoraði fyrsta mark Víkinga í 4-2 sigri á FH í 1. umferðinni 1991 sem fór þá fram 20. maí.

Markið hjá Tomislav kom eftir 9. mínútna leik og það skoraði hann með skalla eftir fyrirgjöf frá Atla Einarssyni. Þetta sumar er einnig síðasta sumarið þar sem Víkingar urðu Íslandsmeistarar.

Þetta er annað árið í röð sem Nikolaj Hansen skorar fyrsta mark Víkinga á tímabili en hann skoraði eina markið í 1-0 sigri á Fylki í fyrstu umferðinni í fyrra.

Nikolaj Hansen hefur enn fremur skoraði í fyrstu umferðinni þrjú ár í röð því hann skoraði annað mark Valsmanna í 2-0 sigri á Ólafsvíkur-Víkingum í fyrstu umferðinni sumarið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×