Pepsi Max deildar lið Grindavíkur sló Aftureldingu örugglega úr Mjólkurbikarnum í 32-liða úrslitunum kvöld. Fjölnir vann ÍR og Keflavík hafði betur gegn Kórdrengjum.
Aron Jóhannsson kom heimamönnum í Grindavík á bragðið á 17. mínútu en gestirnir úr Mosfellsbæ jöfnuðu metin á 33. mínútu með marki frá Alexander Aroni Davorssyni.
Josip Zeba kom Grindavík aftur yfir með glæsilegu skoti upp úr hornspyrnu á 66. mínútu. Grindvíkingar settu svo tvö mörk á tveimur mínútum undir lokin og kláruðu leikinn.
Í Breiðholti tók ÍR á móti Fjölni. Gestirnir komust yfir eftir um korters leik þegar Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði eftir stoðsendingu Alberts Brynjars Ingasonar.
Bæði lið fengu góð færi til þess að skora í upphafi seinni hálfleiks en markið kom ekki fyrr en á 63. mínútu þegar Jóhann Árni Gunnarsson kom Fjölni í 2-0. Heimamenn náðu að jafna tveimur mínútum seinna, varamaðurinn Ágúst Freyr Hallsson gerði það eftir sendingu Helga Freys Sigurgeirssonar.
Undir lokin tryggði Guðmundur Karl Fjölni svo sigurinn, lokatölur í Breiðholtinu 3-1.
Suður með sjó sótti þriðju deildar lið Kórdrengja Keflavík heim. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum, það gerði Tómas Óskarsson á 18. mínútu.
Grindavík, Fjölnir og Keflavík verða því í pottinum þegar dregið verður til 16-liða úrslita en Afturelding, ÍR og Kórdrengir eru úr leik.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
