Unglingalandsliðskonan Ólöf Sigríður Kristinsdóttir er mætt upp á Skaga og fór af því tilefni í viðtal hjá Sigurði Elvari Þórólfssyni á SkagaTV.
Ólöf Sigríður er fædd árið 2003 og hefur skorað 8 mörk í 14 leikjum fyrir yngri landslið Íslands.
„Það er bara fínt að vera komin hingað. Mér fannst það frekar skrýtið fyrst og ég gat ekki horft á mig í spegli eftir fyrstu tvo leikina,“ sagði Ólöf Sigríður sem hefur nú skipt út rauða litnum fyrir þann gula.
„Meistaraflokkurinn er fullur í Val og Skagamenn höfðu samband. Ég skrifaði undir hjá Val en gerði lánssamning á sama tíma,“ sagði Ólöf Sigríður.
„Mér líður bara vel í hópnum. Þetta er skemmtilegur hópur og ég held að okkur muni ganga vel,“ sagði Ólöf Sigríður og segist stefna á þrjú efstu sætin.
Hún ætlar sér sjálf stóra hluti með Skagamönnum í sumar en hún hefur alltaf spilað sem framherji og skorað mikið af mörkum. „Mig langar að skora meira en fimmtán mörk,“ sagði Ólöf.
Fyrsti leikur ÍA í Inkasso-deildinni er á móti FH í næstu viku. FH-liðið féll úr Pepsi-deildinni síðasta haust.
Það má sjá allt viðtalið við Ólöfu hér fyrir neðan.