Ólafía var önnur tveggja sem fékk sérstakt boð frá styrktaraðilum að keppa á mótinu að því er fram kemur á kylfingur.is.
Tækifærið virðist hafa komið óvænt upp og Ólafía auglýsti eftir kylfusveini á Instagram í dag. Skemmtilegur og yfirvegaður eru meðal hæfniskrafna.

Þetta er þriðja árið í röð sem Ólafía keppir á Pure Silk Championship sem hét áður Kingsmill Championship. Hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn 2017 og 2018. Árið 2017 lék hún á fjórum höggum yfir pari og á pari árið eftir.
Ólafía tekur þátt á tveimur mótum í röð á LPGA en hún verður meðal þátttakenda á Opna bandaríska mótinu sem fer fram um næstu mánaðarmót.