Veiði

Bleikjan fer að vaka

Karl Lúðvíksson skrifar
Það sést vel þegar silungur er að éta í yfirborði vatnsins.
Það sést vel þegar silungur er að éta í yfirborði vatnsins.
Þetta var ansi köld helgi og það er ekki beint hægt að segja að það hafi verið fjölmennt við vötnin síðustu daga.

Lífríkið fór í frost um helgina og það er ansi lítið að frétta úr silungsveiðinni nema þá að undanskildu ágætum fréttum af sjóbirtings og urriðaveiði en bleikjan lætur sig bara hverfa þegar það kólnar svona mikið. Þegar fæðuframboð bleikjunnar hverfur tímabundið eins og þegar flugan hættir að klekjast leggst hún í ætisleit á botninum og það getur verið að ná henni en ekkert ómögulegt. Veður hélt mörgum veiðimönnum frá bakkanum um helgina vegna kulda en það er betri spá næstu daga svo það fer vonandi að veiðast betur.

Um leið og það hlýnar tekur flugan við sér aftur og bleikjan fer þá að gæða sér á lirfum á hinum ýmsu stigum. Þegar púpa toppflugu og mýlirfu ýtir sér upp að yfirborði vatnsins er hún auðveld bráð og það eru til nokkrar flugur sem líkja vel eftir púpunni á þessum stigum t.d. Langskeggur og Taylor. Síðan þegar púpan nær upp í yfirborðið og er að brjótast út úr púpunni er það bara hlaðborð fyrir bleikju og þá sjáum við líka vel þegar hún er að æta því þá birtast okkur vakir á vatninu. Það er fátt eins spennandi og að kasta á bleikju þegar hún er að vaka og finna út úr því hvernig flugur hún vill taka svo það er eins gott að vera með gott úrval í boxinu. 






×