Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður og myndlistarmaður hefur verið valin bæjarlistamaður Kópavogs 2019. Valið á Rögnu var kynnt við hátíðlega viðhöfn í Salnum í Kópavogi í rjómablíðu í gær.
Ragna tekur við keflinu af Stefáni Hilmarssyni sem var bæjarlistamaður ársins 2018 en það var Karen E. Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs, sem kynnti tilnefninguna að viðstöddum Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra.
Í fréttatilkynningu segir að Ragna muni sem bæjarlistamaður vinna í samvinnu við Menningarhúsin í Kópavogi að verkefnum og viðburðum sem tengjast textíl og umhverfissjónarmiðum.
„Ég hef mikið velt fyrir mér umhverfisvitund í tengslum við textíl og hef áhuga á að tengja saman börn og eldri borgara í því verkefni. Samvinna kynslóða í handverki er mjög áhugaverð að mínu mati og verður spennandi að fá tækifæri til að vinna að henni og vil ég þakka lista- og menningarráði fyrir útnefninguna sem bæjarlistamaður Kópavogs,“ er haft eftir Rögnu í fréttatilkynningu.

