Alex Freyr meiddist í stórleik KR og Breiðabliks í gær en hann var borinn af velli skömmu fyrir hálfleik.
Hann hitti svo lækna í dag og miðjumaðurinn knái staðfesti í samtali við Vísi að allar líkur eru á slitnu krossbandi.
„Þetta er 99% staðfest að það sé slitið krossband. Ég fer í myndatöku í fyrramálið til þess að staðfesta þetta endanlega og sjá hvernig þetta lítur út,“ sagði Alex Freyr í samtali við Vísi.
Við stöndum upp eftir svona. Bestu batakveðjur á Alex Frey. Ég kem svo sterkari í HK leikinn á sunnudag
— gulligull1 (@GGunnleifsson) July 1, 2019
Alex sagði jafn framt að þetta væri mikill skellur eftir góða byrjun í mótinu en sagði að það væri lítið meira við því að segja. Reikna má með að Alex verði frá næstu 9-12 mánuðina.
Hann gekk í raðir KR frá Víkingi fyrir leiktíðina og hefur staðið sig vel á miðju KR sem hefur unnið sex leiki í röð. KR er á toppi deildarinnar, með fjögurra stiga forskot.