Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, verður meðal keppenda á Thornberry Creek LPGA Classic mótinu sem hefst á fimmtudaginn. Þetta kemur fram á kylfingur.is.
Þetta er fjórða mótið sem Ólafía keppir á LPGA-mótaröðinni í ár. Hún komst ekki í gegnum niðurskurðinn á fyrstu þremur mótunum.
Ólafía keppti á Thornberry Creek LPGA Classic mótinu í fyrra. Hún lék fyrstu tvo hringina á samtals þremur höggum undir pari en það dugði ekki til að komast í gegnum niðurskurðinn.
Ólafía hefur keppt á Symetra-mótaröðinni í ár en er með takmarkaðan þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi.
Thornberry Creek LPGA Classic mótið fer fram í Oneida í Wisconsin í Bandaríkjunum. Mótið verður sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf og hefst útsending á fimmtudag klukkan 22.30.
Ólafía hefur leik á fjórða LPGA-mótinu á fimmtudaginn
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
