Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Cheyenne Woods náðu sér ekki á strik á fyrsta hring Dow Great Lakes Bay Inventional-mótsins í dag. Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni.
Keppt er í tveggja manna liðum á mótinu. Tveir hringir eru leiknir með fjórmennings fyrirkomulagi og tveir með betri bolta.
Ólafía og Woods byrjuðu illa og voru á fimm höggum yfir pari eftir fyrri níu holurnar. Þær réttu hlut sinn á seinni níu sem þær léku á einu höggi yfir pari.
Ólafía og Woods, sem voru skólasystur í Wake Forest-háskólanum, eru því samtals á sex höggum yfir pari. Þær eru í 65. sæti mótsins.
Hinar kanadísku Brooke M. Henderson og Alena Sharp eru með eins höggs forystu á mótinu.
Bein útsending frá öðrum hring mótsins hefst klukkan 20:30 á Stöð 2 Sport 4 á morgun.
Ólafía og Woods neðarlega eftir fyrsta hring
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
