Stjarnan beið lægri hlut fyrir KR, 1-0, í 9. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í gær.
Þetta var fimmti leikur Stjörnunnar í Pepsi Max-deildinni án sigurs og fimmti leikurinn í röð þar sem liðinu tekst ekki að skora.
Jasmín Erla Ingadóttir skoraði síðasta mark Stjörnunnar í deildinni á 83. mínútu í 3-1 sigri á Fylki 22. maí.
Síðan þá eru liðnar 457 mínútur, eða rúmlega sjö og hálfur klukkutími. Markatala Stjörnunnar í síðustu fimm leikjum er 0-12.
Stjarnan vann þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum með markatölunni 5-2 en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina.
Stjarnan er búin að skora fæst mörk allra í deildinni (5) ásamt HK/Víkingi sem hefur leikið tveimur leikjum minna en Garðabæjarliðið.
Þrátt fyrir afleitt gengi að undanförnu er Stjarnan enn í 5. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti.
Eftir leikinn gegn KR í gær staðfesti Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, að tveir leikmenn væru á leið til liðsins. Þetta eru Camilla Bassett og Shameeka Fishley. Sú síðarnefnda lék 14 leiki með ÍBV í Pepsi-deildinni í fyrra. Tímabilið 2017 lék hún með Sindra í 1. deildinni.
Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Selfossi á útivelli á mánudaginn kemur.
Stjarnan ekki skorað í sjö og hálfan klukkutíma

Tengdar fréttir

Kristján staðfestir að Stjarnan fær tvo nýja leikmenn
Stjarnan er farið á markaðinn enda ekki búið að skora mark í deild þeirra bestu síðan 22. maí.

Umfjöllun og viðtöl: KR - Stjarnan 1-0 | KR vann fyrsta leikinn með bráðabirgðaþjálfara
Stjarnan eru ekki búnar að skora í deildinni síðan 22. maí.