Hin 16 ára Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði þrennu þegar Stjarnan vann 2-5 sigur á HK/Víkingi í 13. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld.
„Þetta var mikilvægur sigur fyrir liðið og gott að fá þrjú stig. Við höldum bara áfram. Liðsheildin var góð og allir voru tilbúnir í leikinn,“ sagði Hildigunnur í samtali við Vísi eftir leik.
Mörkin þrjú í leiknum í kvöld voru hennar fyrstu í efstu deild. Raunar var þetta aðeins fimmti deildarleikur Hildigunnar á ferlinum.
„Ég er bara mjög ánægð,“ sagði Hildigunnur hógvær.
Fyrir leikinn í kvöld hafði Stjarnan ekki unnið skorað mark í tvo mánuði og þ.a.l. ekki unnið leik á þeim tíma.
„Þetta gefur okkur mikið sjálfstraust og við ætlum bara að byggja ofan á þetta,“ sagði Hildigunnur að lokum.
