Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki sáttur eftir leikinn, sem Stjarnan tapaði 4-2, og sagði í samtali við Vísi eftir leik að völlurinn væri ekki boðlegur.
„Við aðlöguðumst aðstæðum ekki vel. Þetta er ekki boði. Að bjóða upp á svona árið 2019. Þess vegna erum við gervigrasmennirnir hlynntir því. Það er allt í lagi að spila í roki og rigningu en völlurinn var ekki boðlegur sem sást í mörkunum. Þetta voru lélegar aðstæður og við vorum ekki nógu klókir,“ sagði Rúnar Páll.
„Ég skil hann alveg. Þetta var svolítið Youtube móment þegar það var verið að moka vatninu af vellinum og boltinn að stoppa í pollum,“ sagði Atli Viðar Björnsson í Pepsi Max mörkum karla á Stöð 2 Sport í gærkvöld.
„Ég hjó eftir því að það voru tvö hundruð og eitthvað manns sem mættu á völlinn og fyrir mér eru það 200 hetjur.“
Alla umræðuna úr Pepsi Max mörkunum má sjá hér að neðan.