Þetta er þriðja einkasýning Þorgríms í Galleríi Fold en hann sýnir reglulega erlendis og þá sérstaklega í Bandaríkjunum.
„Ég hef mest verið að sýna í Denver í Colorado og svo Kaliforníu. Ég nálgaðist sjálfur annað galleríið, Abend Gallery, með samstarf í huga. Galleríið í Kaliforníu, Vanessa Roth Fine Art, hafði svo samband við mig og óskaði eftir samstarfi í gegnum samfélagsmiðla.“
Á nýjustu sýningu Þorgríms, Uppbroti, eru um fimmtán verk. „Nafnið á sýningunni kemur svolítið frá því hvað ég var að hugsa við gerð verkanna, að taka raunsæið í viðfangsefninu og brjóta það upp en líka flötinn á verkinu sjálfu, á frekar óhefðbundinn hátt.“
Hann segir stíl sinn hafa þróast mikið síðustu ár, upphaflega hafi hann fyrst og fremst verið í raunsæjum olíuverkum. Þegar á leið hafi honum byrjað að finnast það leiðinlegt til lengdar og fullþvingað.
„Þannig að stíllinn er að þróast og taka hægt á sig nýja mynd. En viðfangsefni mín á þessari sýningu eru nokkuð ólík. Það eru hauskúpur, módel, hestar og landslag.“
Ein myndaserían á sýningunni er tileinkuð melgresi.

Þá hafi Þorgrímur stundum nýtt tækifærið og farið út með myndavélina sína.
„Eitt skiptið endaði ég úti á Gróttu þar sem melgresið er, þykkt og gróft gras sem finnst ekki víða. Ég var þarna alveg örmagna, í raun fyrst og fremst að hvíla mig, þannig að ég lagðist niður. Þá tók ég eftir ýmsum myndbyggingum birtast í grasinu.“
Þá hafi hann byrjað að mynda og fundið alls konar skemmtileg sjónarhorn.
„Þannig að upp úr þessu volæðisástandi sem ég var í þá varð til mjög spennandi myndasería, sem er svo núna til sýnis. Þessar myndir hafa slegið í gegn á Instagraminu hjá mér, því þær eru svolítið öðruvísi og spennandi.“
Þorgrímur er með yfir 60 þúsund fylgjendur á Instagram.
„Það hefur gefið mér mörg tækifæri. Ég hef verið fenginn til að halda fyrirlestra og námskeið erlendis í gegnum Instagram. Ég hélt námskeið sem seldist upp á í Toskana, og verð með annað námskeið þar 1.-7. október. Svo var ég nýverið fenginn til að halda námskeið í Svíþjóð en það er allt á byrjunarstigi.“
Sýningin Uppbrot er í Galleríi Fold og stendur út sunnudaginn 1. september.