Nýlega gaf dömukórinn Graduale Nobili út eistneskt tónverk sem var hljóðritað í lýsistankinum á Hjalteyri við Eyjafjörð 22. og 23. mars. Við upptökurnar stóð kórinn á tíu cm þykkri íshellu í átta gráðu frosti.
„Þetta voru krefjandi aðstæður en þær voru hljómburðarins virði því þarna myndast einhver mesta ómtíðni á landinu, 8-9 sekúndur,“ segir Þorvaldur Örn Davíðsson kórstjóri. „Ég fór norður á undan stúlkunum og þá dúaði ísinn undir mér einum en nóttina áður en þær komu herti frostið og við ákváðum að skella okkur öll út á klakann. Svo þegar við biðum eftir að komast öll út um sama gatið, kom stór brestur í ísinn, þá vorum við fljót að dreifa hópnum.
Fjögur tónlistarmyndbönd voru líka tekin upp á sex tímum í gömlu síldarverksmiðjunni á staðnum óupphitaðri. Þorvaldur Örn segir þau hafa vakið athygli hlustenda á YouTube, ekki síst ný útsetning af Draumalandinu sem var gerð í minningu Jóns Stefánssonar, stofnanda kórsins.