Andri Ólafsson mun færa sig til í starfi í fótboltanum í Vestmannaeyjum í haust þar sem hann mun taka við kvennaliði ÍBV eftir að hafa stýrt karlaliði félagsins í sumar ásamt Ian Jeffs en þeir tóku við liðinu eftir að Pedro Hipolito var rekinn um mitt sumar.
Eyjafréttir greina frá þessu á vef sínum í gær.
Andri tekur við kvennaliðinu af Jóni Óla Daníelssyni en ÍBV var í harðri fallbaráttu í Pepsi-Max deild kvenna í sumar en tryggði sæti sitt í gær með 2-0 sigri á Fylki.
Andri er öllum hnútum kunnugur í Eyjum en hann var fyrirliði ÍBV um árabil og hefur verið í þjálfarateymi karlaliðsins undanfarin ár.
