Hún var m.a. hluti kuldabylgjusveitarinnar Antimony en fæst nú til dags helst við sólóverkefni sitt Rex Pistols, sem hét um tíma Discipline. Þar er kuldinn líka allsráðandi, líkt og ísöld sé skollin á í hljóðgervlaveröld níunda áratugarins.
Hún segir lagalistann settan saman af stórkostlegum sveitum sem hún bar fyrst augum á Klubb Kalabalik på Tyrolen hátíðinni í Svíþjóð. „Þetta var fyrsta hátíðin sem ég spilaði á erlendis, og það var virkilega gaman að fá að deila sviðinu með svo mörgu afbragðs listafólki.“
Klubb Kalabalik er árleg gotaskotin tónlistarhátíð sem hefur átt í samstarfi við íslenska kollektívið Myrkfælni. Í ár spiluðu íslensku sveitirnar Madonna + Child, Dulvitund, Countess Malaise og Sólveig Matthildur ásamt Rex á hátíðinni.
Rex bætir við að hún komi fram í lokapartýi Listastofunnar í Iðnó 19. september, hún haldi útgáfuteiti fyrir myndband við lag sitt Feel It Inside í Flæði á Grettisgötu þann 20., og sé þar að auki að spila í R6013 í Ingólfsstræti þann 26. september.
Nú haustar að, og föstudagurinn þrettándi genginn í garð. Það er því tilvalið að hlýða á melankólískan nýbylgjudrunga og samsama sig með stöðu mála.