Samkomulag hefur verið gert um vinnustofudvöl fyrir íslenska myndlistarmenn við listastofnunina Künstlerhaus Bethanien í Berlín, til næstu fimm ára.
Verkefnið er fjármagnað af mennta og menningarmálaráðuneytinu og einkaaðilum en Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar annast framkvæmdina fyrir Íslands hönd.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar segir að dvölin veiti listamönnum sem dvelji við Künstlerhaus Bethanien aðgengi að öflugu alþjóðlegu tengslaneti; sýningarstjórum, safnafólki, blaðamönnum og öðrum sem starfa innan geirans.
„Auk þess heldur stofnunin utan um sýningarhald, útgáfu og ýmsa viðburði fyrir listamennina sem þar dvelja. Á meðan vinnustofudvöl stendur heldur hver listamaður einkasýningu á vegum Künstlerhaus Bethanien,“ segir í tilkynningunni.
Künstlerhaus Bethanien var stofnuð árið 1974, og er sögð ein rótgrónasta og virtasta stofnun Þýskalands á þessu sviði og vel þekkt alþjóðlega. Að jafnaði starfi um 25 listamenn víðsvegar að úr heiminum við miðstöðina.
Samið um vinnustofudvöl fyrir íslenska myndlistarmenn í Berlín
