Valur vann Íslandsmeistara KR, 3-2, í úrslitaleik Bose-mótsins á Hlíðarenda í kvöld. KR-ingar unnu Bose-mótið í fyrra.
Valsmenn fara vel af stað undir stjórn Heimis Guðjónssonar sem tók við þeim af Ólafi Jóhannessyni í haust.
Andri Adolphsson átti frábæran leik fyrir Val í kvöld. Skagamaðurinn skoraði eitt mark og lagði hin tvö upp.
Patrick Pedersen kom Val yfir með skalla eftir fyrirgjöf Andra á 7. mínútu. Sá síðarnefndi kom heimamönnum svo í 2-0 á 34. mínútu.
Tobias Thomsen minnkaði muninn fyrir KR á 72. mínútu. Aðeins sex mínútum síðar skoraði varamaðurinn Birkir Heimisson þriðja mark Vals. Hann var fyrsti leikmaðurinn sem Heimir fékk til Vals.
Pálmi Rafn Pálmason minnkaði muninn á 82. mínútu en nær komst KR ekki. Lokatölur 3-2, Val í vil.
Kristján Flóki Finnbogason, framherji KR, fékk rautt spjald undir lok leiksins.
Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.

