Handbolti

Bjarki Már með 14 mörk og 100% skotnýtingu í sigri Lemgo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már er markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni.
Bjarki Már er markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni. vísir/getty

Bjarki Már Elísson átti stórkostlegan leik þegar Lemgo vann Erlangen, 34-32, í þýsku úrvalsdeildinni í dag.

Bjarki Már skoraði 14 mörk úr jafn mörgum skotum og var langmarkahæstur á vellinum. Fimm marka hans komu úr vítaköstum. Bjarki Már er markahæstur í þýsku deildinni með 144 mörk.

Lemgo, sem hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum, er í 13. sæti. Erlangen, sem Aðalsteinn Eyjólfsson stýrir, er í 10. sætinu.

Oddur Gretarsson var ekki á meðal markaskorara hjá Balingen-Weilstetten sem steinlá fyrir Melsungen, 36-23.

Balingen hefur tapað fjórum leikjum í röð og eru í 14. sæti deildarinnar, einu sæti ofar en Stuttgart sem tapaði stórt fyrir Hannover-Burgdorf, 32-19. Elvar Ásgeirsson komst ekki á blað hjá Stuttgart.

Þá unnu meistarar Flensburg fimm marka sigur á Minden, 27-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×