Handbolti

Guðjón Valur búinn að fá fyrsta leikmanninn til Gummersbach

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Raul Santos hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár. Hann fær nú tækifæri til að komast í sitt gamla form undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar.
Raul Santos hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár. Hann fær nú tækifæri til að komast í sitt gamla form undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar. vísir/getty

Guðjón Valur Sigurðsson er búinn að fá sinn fyrsta leikmann til Gummersbach eftir að hann tók við þjálfun liðsins.

Sá heitir Raul Santos og er austurrískur landsliðsmaður. Hann leikur í vinstra horninu, sömu stöðu og Guðjón Valur lék á sínum ferli.

Santos, sem er 27 ára, þekkir vel til hjá Gummersbach en hann lék með liðinu á árunum 2013-16. Hann sló í gegn hjá Gummersbach og gekk í kjölfarið í raðir stórliðsins Kiel sem Alfreð Gíslason þjálfaði.

Undanfarin ár hefur leiðin legið niður á við hjá Santos. Eftir tvö tímabil hjá Kiel fór hann til Leipzig. Í vetur skoraði hann aðeins tólf mörk í sautján leikjum með Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni.

„Síðustu ár hafa ekki verið auðveld fyrir Raul. Við viljum gefa honum tækifæri til að ná aftur fyrr styrk og erum fullvissir um að það takist,“ sagði Christoph Schindler, framkvæmdastjóri Gummersbach, í frétt á heimasíðu félagins. 

Santos skrifaði undir tveggja ára samning við Gummersbach. Þar hittir hann fyrir félaga sína í austurríska landsliðinu, Janko Bozovic og Alexander Hermann.

Gummersbach endaði í 4. sæti þýsku B-deildarinnar á síðasta tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×