Þór/KA hefur fengið til sín enska markvörðinn Lauren-Amie Allen sem hefja mun æfingar með liðinu á morgun og leika með því í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í sumar.
Allen, sem er fædd árið 1996, lék á Íslandi á síðasta ári þegar hún varði mark Tindastóls sem endaði í 3. sæti næstefstu deildar. Hún samdi við Þór/KA fyrr í vetur en kórónuveirufaraldurinn tafði fyrir komu hennar til Akureyrar. Nú er Allen hins vegar mætt og getur varið mark Þórs/KA gegn Stjörnunni eftir mánuð, þegar Íslandsmótið hefst.
Allen var hjá Chelsea sem barn og unglingur, eða til 18 ára aldurs, og fór þaðan til Fulham í eitt ár og Crystal Palace í þrjú ár.
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir lék 13 af 18 deildarleikjum Þórs/KA í fyrra en glímdi við meiðsli. Liðið fékk Elian Graus Domingo frá Sindra á Hornafirði, á undanþágu, til að spila síðustu leiki tímabilsins.