Haraldur Franklín Magnús hefur forystu fyrir lokahringinn á B59 Hotel-mótinu í golfi sem fram fer á Akranesi um helgina en þetta er fyrsta mót ársins á golfmótaröð GSÍ.
Haraldur lék annan hring á 68 höggum, fjórum höggum undir pari og er því samtals á níu höggum undir pari fyrir lokahringinn.
Hákon Örn Magnússon er skammt á eftir Haraldi á samtals átta höggum undir pari eftir að hafa leikið á 69 höggum í dag og ljóst að lokahringurinn, sem fram fer á morgun, verður spennuþrunginn.
Axel Bóasson lék allra kylfinga best í dag; fór hringinn á 66 höggum og er í fjórða sæti ásamt Guðmundi Rúnari Hallgrímssyni á samtals fimm höggum undir pari. Hlynur Bergsson þriðji á samtals sex höggum undir pari.