Haukakonan Harpa Karen Antonsdóttir kórónaði endurkomu sína í fótboltann í gærkvöldi þegar hún spilaði sinn fyrsta fótboltaleik í heila átta mánuði.
Harpa Karen og liðsfélagar hennar í Haukum héldu líka upp á endurkomu hennar með því að vinna Pepsi Max deildarlið KR 2-1 og það á heimavelli KR-liðsins á Meistaravöllum. Haukakonur spila í B-deildinni í sumar.
KR komst yfir með marki Ölmu Mathiesen en Elín Björg Símonardóttir og Heiða Rakel Guðmundsdóttir tryggðu Haukum sigurinn.
„Er svo ótrúlega glöð og stolt af sjálfri mér, búin að leggja svo mikið á mig og koma mér í hlaupaform upp á síðkastið, gat ekki hlaupið einn fótboltahring í byrjun janúar,“ skrifaði Harpa Karen Antonsdóttir á Instagram og það eru margir sem dást af viljastyrk og baráttuþreki hennar í þessum erfiðu aðstæðum.
Það eru átta mánuðir síðan að Harpa Karen byrjaði í lyfjagjöf og aðeins sex mánuðir síðan að hún kláraði erfiða krabbameinsmeðferð. Gærkvöldið var því stór sigur fyrir þessa ungu knattspyrnukonu.
„Þetta er svo stór sigur fyrir mig og búið að vera markmiðið mitt síðan ég byrjaði í meðferð,“ skrifaði Harpa Karen sem spilaði fimmtán mínútur í leiknum í gær.
Harpa Karen Antonsdóttir er 21 árs gömul, fædd 1999, og á leiki að baki í efstu deild fyrir bæði Val og KR. Harpa Karen spilaði fjóra leiki með Haukum í Inkasso deildinni í fyrra.